— GESTAPÓ —
Félagsrit:
krumpa
Fastagestur og  sagnaþulur.
Dagbók - 31/10/03
Víti til varnaðar

Enn einn sjálfhverfur sálarflækjupistillinn, skrifaður vegna skorts á almennilegum hugdettum.

Ég er besserwisser. Ég er reyndar líka skapstygg og þrjóskupúki en aðallega er ég besserwisser. Og það ekki af lakara taginu. (Vil taka fram að það má reyndar líka margt gott um mig segja en það verður ekki gert hér). Ég tek ekki ábendingum, tilmælum eða gagnrýni. Ég les ekki leiðbeiningar og hef aldrei litið á landakort. Þetta hefur reyndar orðið þess valdandi að ég á fullt af rafmagnstækjum sem ég kann ekki á og ef ég fer í frí þá er það bara til Hveragerðis - ekki hægt að villast á leiðinni þangað ! Ég smíða skútur og skerpi skauta, ég get allt og veit allt. Og viti ég ekki eitthvað þá er það af þeirri ástæðu að ég er búin að gleyma því ! Ég hef aldrei tapað í trivial - og skyldi það einhvern tímann gerast þá er það vafalaust því að hinir svindla. Ég er afburðamanneskja í því sem ég tek mér fyrir hendur, viðfangsefnunum og nýjum upplifunum fer reyndar ört fækkandi enda tilgangslaust að gera eitthvað ef maður getur ekki gert það vel - strax ! Kannast einhver hérna við þessi einkenni ? Huh, enginn ?? O, jæja...

Það er ekki langt síðan ég gerði mér grein fyrir þessum ljóði á mínu ráði og enn styttra síðan mér datt í hug að ef til vill hefði þetta á einhvern hátt hamlandi áhrif á líf mitt.
Svo ég fór að hugsa... Fyrsta skrefið (af tólf ?) er vitaskuld að gera sér grein fyrir og horfast í augu við vandann. Hvar hefur þetta hamlandi áhrif á líf mitt ? Ég er nú svo heppin að nám mitt (og framtíðarstarf) byggist að mestu upp á sjálfsnámi svo að það eru engir misvitrir leiðbeinendur að þvælast fyrir mér. Hvað vinnu varðar þá er það þannig að ég hef verið í yfirmannsstöðu síðustu tíu árin svo að þar er nú bara hlustað á mig með lotningu - enginn sem þorir að mótmæla. Ég reyni að velja mér vini sem standa mér aftar á einhverjum sviðum svo að þeir taka því ekki illa þó að ég af visku minni komi með ábendingar og góð ráð.

Það er aðallega á sviði íþróttanna sem þessi besserviska háir mér. Þrátt fyrir nokkrar tilraunir hefur mér ekki tekist að hasla mér völl á íþróttasviðinu.

Vinur minn bauð mér eitt sinn í keilu, það lýsir reyndar mögnuðu hugmyndaflugi af hans hálfu því að það eina sem yfirgnæfir hæfileikaleysi mitt í þeim ágæta leik er algert og gersamlegt áhugaleysi. Hann ætlaði svo að fara að sýna mér einhverja ameríska keilusveiflu. Fussumsvei - að ætla að fara að kenna mér. Ég horfði óþolinmóð á hnn sveifla sér í allar áttir og henti svo kúlunni - my way! Okkur var vitaskuld hent út, enda á víst ekki að þrusa kúlunni eins og handbolta á brautina.

Næst var það pool (en fyrir þá sem ekki vita er það snooker fyrir kjuðahefta) en fyrrverandi (af augljósum ástæðum) elskhugi fékk eitt sinn þá fantagóðu hugmynd að kenna mér pool. ,,ÉG SKIL ÞETTA ALVEG - HELDURÐU AÐ ÉG KUNNI EKKI EINFALDA HORNAFRÆÐI" Svo fór að kjuðum var grýtt í veggi og ófögur orð féllu en reyndar kom ég ekki einni einustu kúlu í vasa.

Síðasta tilraun mín á sviði íþróttanna var í golfi. Það er róandi og skemmtilegt sport - þ.e. nema með mér. Einhverjum yngissveini datt í hug að það væri nú rómó og fínt að bjóða mér með í golf. Held honum hafi ekkert þótt það rómó að fá kylfuna í hnéskelina og það var enginn sérstakur fínheitablær yfir skapvondri kellingu sem elti boltana bölvandi og ragnandi, enda auðvitað boltunum að kenna að ekki gekk betur. Síðan hefur hann farið einn í golf.

Það getur því verið erfitt að vita allt, kunna allt , geta allt og skilja allt og það er hraðbraut til vítis sem erfitt er að víkja af. Ég er að vinna í mínum málum og vona að saga mín verði hvatning fyrir þá sem svipað er ástatt um.

Batnandi fólki er best að lifa !
Langar annars einhvern í pílukast ? ha, nei bara spurði svona...

   (111 af 114)  
31/10/03 12:01

Tinni

Hver er ekki Besservisser, þegar hann veit svarið?

31/10/03 12:01

krumpa

Tjah, það sem ég á við er að það er kannski óþarfi að þurfa alltaf að vita svarið ?

31/10/03 12:02

Vamban

Ja, ef maður telur sig vita betur til hvers þá að hlusta á annað?

31/10/03 12:02

krumpa

Ó - það er engin hjálp í ykkur ! Hér eru allir jafnslæmir besserwisserar og ég !

31/10/03 12:02

Herbjörn Hafralóns

Ég væri til í að spila við þig Lúdó

31/10/03 12:02

Skabbi skrumari

Ég veit sjaldan betur en aðrir...held ég...er það ekki?

31/10/03 13:01

Sprellikarlinn

hvað meða að prufa bolta-lausa íþrótt eins og skíði?

krumpa:
  • Fæðing hér: 6/10/04 16:54
  • Síðast á ferli: 13/4/16 19:39
  • Innlegg: 328
Eðli:
Er ósköp ljúf og góð undir venjulegum kringumstæðum - þ.e. sé ekki mánudagur, fullt tungl, nýtt tungl eða óheppilegur tími mánaðarins ... Hefur leikið í fjölda Bond-mynda...
Fræðasvið:
Hefur yfirgripsmikla þekkingu á írskum drykkjuslögurum og breskum gamanþáttum frá áttunda og níunda áratugnum. Hefur aldrei horft á heila Bond-mynd....I was christened david anthony but yet inspite of that to my father i was william to my mother i was pat...
Æviágrip:
Ánetjaðist snemma ýmiss konar ósóma, eins og reykingum, kaffidrykkju, goggolíu og stóðlífi. Hefur nú séð ljósið á baggalúti og látið af illu líferni. Enda sæmir ekki annað virðingarstöðu hennar sem keisaraynju Baggalútíska heimsveldisins. Sést reyndar nokkuð í spilavítum (enda nokkurn veginn atvinnumanneskja í póker) og oftar en ekki með huggulegan, smókingklæddan mann sér við hlið.