— GESTAPÓ —
Galdrameistarinn
Heiðursgestur.
Pistlingur - 1/11/09
Grasið græna og lækurinn

Tilefni þessara skrifa er að benda á þá staðreynd, að þó grasið sýnist grænna hinu megin við lækinn, þá eru sömu snarrótartopparnir og sinan þar þó það sjáist ekki úr fjarlægð.<br /> Skrifin útskýra sig sjálf við áframhaldandi lestur.

Það er dálítið athyglisvert að fylgjast með fólki sem hefur flutt erlendis (yfir lækinn þar sem grasið sýnist grænna af hinum bakkanum) lýsa því hvað það hefur það rosalega gott, há laun og lífsstandardinn allt öðru vísi en á íslandi.
En það er ekki öll sagan því þarna er rjómanum fleytt ofan af og undanrennuni hent án þess að kíkja nánar á það.

En er svo rosalega gott að búa á hinum norðurlöndunum þegar allt kemur til alls?
Í raun ekki þegar farið er að skoða málið nánar.
Rafmagn sem dæmi kostar hér 7 sinnum meira en á íslandi. Við borgum mikið fyrir að fá vatn úr krananum og skattar eru hærri þó svo laun séu hærri. Matur og neysluvörur eru mikið dýrari en fólk gerir sér grein fyrir.
Svo er það kostnaður við að hita húsnæði sitt sérstaklega ef maður býr úti á landi og hefur ekki aðgang að fjarvarmaveitu.

Sem dæmi þar sem ég bý kynda flestir með olíu og maður má reikna með um 30 lítra eyðslu af þeim vökva á sólarhring að meðaltali yfir árið, eða um 1500 lítrum á ári. Kostnaður við það dæmi eitt og sér er um 12 til 14 þúsund danskar krónur eða um 240 til 280 þús klakakrónur.
Neysluvatn kostar um 2.500 dkr á þriggja mánaða fresti og rafmagn um 1.500 fyrir sama tímabil.

Ég er heppinn hvað varðar leigu og greiði aðeins 2.800 dkr í leigu á mánuði en algengt verð er 4.500 til 7.000 dkr.
Tryggingar þarf maður að borga af innbúi og bíl og þar er um 6.500 dkr á ári en innbúið er tryggt fyrir um 2 miljónir dkr hjá mér.
Bílar eru dýrirr og sem dæmi keypti ég mér 3. ára gamla Hyundai Sonata disel í sumar og greiddi fyrir hann 160 þús dkr. Sami bíll á íslandi kostar um 80 þús dkr svo dæmi sé tekið.

Matur kostar líka sitt og ég veit ekki hvort fólk er tilbúið að borga yfir 1.000 klakakrónur fyrir 500 gr af nautahakki, en ég tek fram að ég þekki ekki verðlag á mat á íslandi um þessar mundir.
Vissulega er hægt að komast í góð tilboð á matvöru eða heimsækja slátrara úti á landsbyggðinni og kaupa beint af þeim og spara með þeim hætti.
Hef ekki fleiri orð um það, en sný mér að vinnutíma og launum.

Ég hef keyrt taxa í rúm 2 ár núna en það er ekki almenn leigubílakeyrsla sem ég stunda heldur eru þetta 99% sjúkraflutningar fyrir kommúnurnar enda allt boðið út hérna.
Ég veit ekki hvort fólk væri tilbúið að vinna með þeim hætti sem ég geri, en ég þarf oft að fara á fætur á bilinu 3 til 5 á næturnar til að fara í vinnu. Oft er ég ekki að koma heim fyrr en 7 til 9 á kvöldin svo vinnudagurinn er langur.

OK! hugsa nú margir, góð laun fyrir svona mikla vinnu. En þar skjöpplast fólki heldur betur. Við erum á jafnaðarkaupi sem eru litlar 115 dkr á tíman og þurfum þvi´að vinna amk 10 tíma á dag 5 daga vikunar til að eiga fyrir reikningum og nauðsinjum. Þar fyrir utan á maður sér lítið líf þegar um svona tíma er að ræða og oft keyrt í myljandi umferð með misgeðgóða farþega allan tíman.
Andlega þreytan og álagið sem þessu fylgir er ekkert grín og á þessum 2 árum hafa 4 vinnufélagar mínir lent á sjúkrahúsi vegna hjartans. Álagið of mikið. Sjálfur hef ég einu sinni lent inni dagspart þar sem ég brotnaði saman andlega undan álaginu.

Ég hef á síðustu sex mánuðum sótt um yfir 20 störf en ekki fengið neitt annað enda bullandi atvinnuleysi hér í Danmörku svo ég ráðlegg fólki ekki að leita eftir neinu hingað hafi það haldið að það væri eitthvað að finna.

Ég vona að fólk sjái í þessum pistli mínum að grasið er í raun ekkert grænna hinu megin við lækinn þegar allt kemur til alls.

   (4 af 15)  
1/11/09 07:01

Heimskautafroskur

En grasið er alltaf grænna á næstu gröf.

1/11/09 07:01

Garbo

Góður pistiill.

1/11/09 07:01

Grágrímur

Jebbs og fyrir utan að sita nánast í sömu súpu og maður hefði gert ef maður hefði verið heima, á saknar maður fjölskyldu og vina.

Og svo er tungumálið ömurlegt.

1/11/09 07:02

Grágrímur

Og hjólinu manns stolið.

1/11/09 07:02

Heimskautafroskur

Danska finnst mér bæði skemmtilegt og fallegt tungumál, enda var það Andés Önd sem færði mér það á sínum tíma. Gisp.

1/11/09 07:02

Offari

Grasið er víst grænna í Þingeyjarsýslu.

1/11/09 07:02

Upprifinn

Offari er með þetta.
Ég fer allavega ekki til Danmerkur aftur fyrr en ég verð orðinn verulega ríkur.

1/11/09 08:01

Regína

Kallarðu Atlantshafið læk! Hvað verður næst?

1/11/09 08:01

núrgis

Ég prófaði DK eftir hátíðlegar yfirlýsingar margra um að allt væri betra þar. Ég entist í 6 mánuði og kom svo heim með skottið á milli lappanna. Svo fékk ég mér húðflúr af Íslandi og ákvað að fara aldrei héðan aftur.
Komdu bara heim. Það hlýtur að vera hægt að finna eitthvað handa þér að gera hérna. Það vantar alltaf bændur og fólk sem kann að reikna.

1/11/09 08:02

Kiddi Finni

Vinnuskilyrðin sem þú vinnur með eru ekki mönnum bjóðandi. Vonandi færð þú eitthvað annað að gera. Ég sem héld að allt væri svo dejligt í Baunaveldi. Þó var ekkert á leiðinni þangað.

1/11/09 09:00

Ívar Sívertsen

Hvað hakkið varðar þá kostar kílóið af blönduðu svínahakki ríflega 300 kall. Blandað hakk með sinum, fitu, nauti, lambi og svíni minnir mig að sé á 800 kall og kílóið af fyrsta flokks nautahakki án kartöflutrefja sé á 1.700 kall. En þar komum við að kaupmætti launa. Ég held að það sé ekki hægt að bera þessar tölur saman eins og þú gerir. Laun leigubílstjóra hér eru líklega talsvert mikið lægri á tímann heldur en þarna úti og þar af leiðandi ekki sambærilegur hlutur að tala um 115 dkr. á tímann og 1000 ikr. fyrir 500 grömm af hakki. Ég held að það væri nær að finna einhverjar hagtölur sem segja okkur hver kaupmáttur launa á Íslandi er vs. kaupmátt launa í Danmörku. En miðað við þær staðtölur sem þú gefur þá grunar mig að þú sért með ca. 650.000 ikr. fyrir skatt og gjöld. Nær væri að segja okkur hvað þú fengir útborgað af þessum 115 dkr á hvern unninn tíma. Það er svo margt sem spilar inn í. En ég efast ekki stafkrók um það að þú hafir það skítt þarna úti enda miklu betra að vera hér á náskerinu heldur í þessu flotholti þarna.

1/11/09 09:01

Ísdrottningin

Komdu bara hið snarasta heim aftur, það segir sig sjálft að í landi án jökla og fjalla er ekki búandi.

1/11/09 10:00

Arne Treholt

Í landi elda og ísa,
að una sér er vænna,
og grasið miklu grænna
og gengið er að rísa.

1/11/09 10:01

Anna Panna

Ég er sammála mörgu hjá þér Galdrinn minn. En það er margt til í því sem Ívar segir, kaupmátturinn er það sem skiptir máli í svona samanburði.
Ég er heldur ekki fullkomlega sammála því að fólk hafi ekki neitt að sækja til Danmerkur, það er kannski ekki heppilegast fyrir þá sem vilja vera á vinnumarkaði að flytja hingað en fyrir þá sem vilja fara í nám er mjög gott að vera hérna og fjölbreyttar námsleiðir í boði.
En það er alveg rétt að það er svosem ekkert betra að koma sér í burtu og búast við því að enda með mjólk og hunang drjúpandi af hverju strái. Hversdagsvandamálin eru nefnilega afskaplega svipuð, sama hvar í heiminum maður er...

1/11/09 11:00

Huxi

Ég skil ekki heldur hvað menn vilja vera að þvælast til Danmerkur þegar hægt er að komast í fínar vinnubúðir í Noregi. Þar eru Íslendingar hinir nýju Pólverjar og eftirsóttir sem slíkir. Í Norge er lámarkskaup verkamanna í kringum 150 nkr. og eiginlega bannað að vinna meira en 40 tíma á viku. Vinna 60 tíma á viku og lifa spart, þá er fljótgert að borga niður kreppuskuldirnar með heimsendum péning...

1/11/09 12:00

U K Kekkonen

Ég bjó eitt sinn í Baunaveldi og fannst það ekkert spes, svosem ekkert vont heldur en mér líður betur hér í skóginum fyrir norðan.

Galdrameistarinn:
  • Fæðing hér: 6/9/04 12:47
  • Síðast á ferli: 21/3/24 16:58
  • Innlegg: 5944
Eðli:
Taðskegglingur, nöldurseggur, samfélagsrýnir og dóni.
Fræðasvið:
Meðfæddur eiginleiki að fara í taugarnar á fólki.
Æviágrip:
Afspyrnu leiðinlegt eintak af homo sapiens eða einhverri hliðarþróun frá þeirri tegund.
Hefur ætíð allt á hornum sér og sjaldnast jákvæður nema þá helst fyrir slysni.
Helsta skemmtunn er að atas í samferðafólkinu og veit ekkert skemmtilegra en þegar fólki er svo gjörsamlega ofboðið að morðglampi tendrast í augum þess.
Er einnig mislyndur og þunglyndur og hefur ýmist ofurtúr á sjálfum sér eða þá hina megnustu fyrirlitningu.
Draumóramaður sem les Sci-fi bækur og æfintýri en inn á milli skáldsögur, æfisögur og ljóð.

Spakmæli. Bókin er besti vinurinn.