— GESTAPÓ —
Lómagnúpur
Nýgræðingur.
Dagbók - 2/12/04
Langafasta

Sérhvert ár þegar slefandi ungviðið ráfar um spangólandi í græðgismóki og heimtar meiri sykur, sest ég niður og skipulegg föstuna.

Jæja, þá er hún hafin, langafasta. Í Lómagnúpi fylgir því jafnan nokkur kvíði þegar fastan gengur í gang. Að taka sér sjö vikna frí frá alvöru mat er ekkert gamanmál þar á bæ. Að þessu sinni er líka nokkuð súrt í broti að sjálfur þorrinn er truflaður með þessum hætti og því verða þorrablótin nokkuð daufleg uppúr þessu. Aðeins harðfiskur og hákarl.
Á hverju ári reynum við að skapa einhverja heildarstefnu fyrir mat á föstunni. Í hitteðfyrra lagði ég upp með hafra, og hannaði margskonar skemmtilega rétti upp úr höfrum í allri sinni mynd. Í fyrra beindi ég sjónum mínum að fiskimjöli, en sem kunnugt er er mikið framleitt af því hér á landi. Það er ótrúlegt hversu vel það nýtist í allskyns brauð og kökur, svo ekki sé minnst á pylsur, grauta og grjúpán.
En nú þarf að leggja línurnar fyrir þetta árið. Það skal tekið fram að í Lómagnúpi er ekki étið ferskt grænmeti á vetrum enda veikir það andann. Kartöflur og rófur eru vetrargrænmeti og þær má drýgja með soðkökum. Í ljósi þessa var ég að hugsa um að stinga upp á við frú Lómagnúp að við reyndum að treysta á samspil vetrargrænmetis og loðnu að þessu sinni. Loðnuvertíðin hefur verið afar góð núna og mikið er til af lausfrystri loðnu frá Síldarvinnslunni á Neskaupsstað. Loðnuhrognin fara líka að koma í verslanir og þau eru mikið hnossgæti ofan á soðkökurnar.
Já, svei mér þá ef þetta verður ekki lostæt langafasta.

   (10 af 33)  
2/12/04 09:01

Heiðglyrnir

Herra Lómagnúpur yður er ekki alls varnað, hvorki í skrifum yðar né borðhaldi, megi langafasta verða yður og yðar frú sem ánægjulegust, auka yður giftu til anda sem og handa, þess óskar yður með virðingu og þakklæti fyrir yðar frábæru skrif. Riddarinn.

2/12/04 09:01

Gvendur Skrítni

Ávextir eru líka ágæt föstufæða en það getur verið erfitt að geyma þá. Besta ráðið er að nota sumarið til að bræða lýsi í miklu magni og setja í tunnu. Að hausti skal svo tína krækiber af áfergju og setja í lýsistunnuna. Lýsið geymir krækiberin prýðilega og varðvetast þau þannig allan veturinn. Á föstu er svo hægt að seilast í tunnuna og ekki skemmir kjarngott lýsið fyrir hollustunni.

2/12/04 09:01

Sundlaugur Vatne

Svo er öskudagur í dag. Fyrsti dagur í lönguföstu. Þá ber manni, eins og á föstudaginn langa, að halda sérstaklega í við sig.

2/12/04 09:01

Blíða

Úff, það er kannski bara Reykvíkingurinn í mér, en þetta er matreiðslubók sem mig langar ekki að lesa!
En verði þér að góðu...

2/12/04 10:01

Skabbi skrumari

Mikið er þetta frábært félagsrit... hvenær kemur svo út matreiðslubókin Langafasta?

Lómagnúpur:
  • Fæðing hér: 12/8/03 11:39
  • Síðast á ferli: 5/9/07 16:05
  • Innlegg: 4
Eðli:
Krossfari heilbrigðrar skynsemi
Fræðasvið:
Búvísindi, niðursuða, mekaník, epík. Enn fremur málfar, heilsufar, veðurfar og skarfar. Allt er lýtur að hannyrðum, einkum örfhentra. Ekkert mannlegt er mér óviðkomandi.
Æviágrip:
Það er svo margt að minnast á. Ætli ég láti ekki nægja að stinga því að ykkur að ég hef aldrei verið á sjó en hefi þó horft á hafið alla ævi. Ætli það kalli mig kannski til sín einhvern tímann?