— GESTAPÓ —
Vímus
Heiðursgestur.
Pistlingur - 4/12/06
Jón, séra Jón, læknamafían og ég.

Pistill Krumpu er kveikjan að þessum pistli mínum sem er þó ótrúlegt sé dagsannur.

Fyrir u.þ.b. fimm árum sat ég í mestu rólegheitum einn heima á laugardagskvöldi og sötraði öl sem ég keypti í fríhöfninni, nýkominn frá Köben. Ég fékk þó ekki notið ölsins þetta kvöldið, sama hvað ég reyndi. Ég fór að finna einhver andskotans óþægindi fyrir brjóstinu sem ég reyndi að losa mig við með því að gleypa vænan skammt af nobligan verkjahylkjum sem dugðu skammt því óþægindin breyttust fljótlega í logandi sársauka sem leiddi út í vinstri handlegg og upp í kjálka.
Nú já það er bara svona hugsaði ég. Þá er sennilega komið að leiðarlokum hjá mér. Ég greip símann og hringdi í neyðarvaktina og sagðist nokkuð viss um að hjartað í mér væri við það að segja upp starfi sínu. Ég lýsti þessum andskota fyrir símastúlkunni sem spurði hvort ég vildi ekki fá sendan hjartabíl sem þáði með þökkum. Síðan sagði hún að það væri læknir staddur ekki langt frá mér og hann gæti komið strax og hvort ég vildi það. Mér þótti ekki verra að hafa hann hér þó ekki væri nema til að halda í hendina á mér meðan ég geispaði golunni. Á meðan ég beið hugsaði ég að nú gæti ég einfaldlega dottið niður dauður. Það var nokkuð merkileg reynsla því ég var sallarólegur og það vottaði ekki fyrir neinum ótta við að deyja. Hins vegar olli það mér áhyggjum að það mundi enginn pæla neitt í því þó ekkert heyrðist í mér næstu 2 - 3 vikurnar og það færi að slá í hræið og fýluna mundi leggja um húsið.
Mitt í þessum pælingum kemur þetta helvítis fyrirbæri sem kallaðist læknir.
Hvað er að þér? Spurði hann hranalega.
Ég er viss um að ég er með hjartaáfall.
Hvers vegna heldur þú það?
Ég lýsti fyrir honum líðan minni eftir bestu getu þó ég gæti varla talað fyrir verkjum.
Hann spurði þá hvort mér væri flökurt eða hvort ég hefði þurft að leggjast fyrir. Þegar ég svaraði því neitandi sagði hann ekkert vera að hjartanu í mér. Þetta væri maginn og svo skrifaði kvikindið upp á losac og sagði þetta kosta 1600 kr.
Ég spurði hvort hann vildi Visa eða debet.
Svarið sem ég fékk hljóðaði svona.
Heldur þú að ég geti verið að þvælast með svoleiðis dót með mér? Áttu ekki fyrir þessu maður? Þú verður að koma til mín strax eftir helgi og borga þetta.
Það kom enginn hjartabíll en ég gat skriðið út í eigin bíl á þriðjudegi fárveikur og keyrt upp á heilsugæslu þar sem kom strax í ljós að ég var með alvarlegt hjartaáfall. Þar átti að senda mig í snarheitum í sjúkrabíl á Borgarspítalann en ég afþakkaði það og sagðist alveg geta komið mér þangað sjálfur.
Þar sem ég væri ekki dauður enn þá væri það ekkert á dagskrá á næstunni. Þrátt fyrir öflug mótmæli yndælis starfsfólks heilsugæslunnar. gekk ég út og keyrði sjálfur upp á spítala.
Ég var með tvær æðar stíflaðar sem voru þræddar. Ég átti að liggja þar í viku en eftir tvo daga kom ég mér út.
Tyson átti að keppa um kvöldið og ég horfði á hann laminn í spað en bjórinn kláraði ég.
1600 krónurnar borgaði ég aldrei en hálfvitann kærði ég fyrir Landlækni sem viðurkenndi að þetta hefði ekki verið rétt að farið.
Við endurkomu mánuði seinna sagði hjartalæknirinn sem hafði með mig að gera að hann og þræðingalæknirinn hefðu verið að ræða um mig deginum áður og þetta væri alveg einstakt að enga skemmd væri að finna í hjartanu á mér.
Ári seinna fór ég í skoðun hjá honum aftur. Ég spurði hvort væri ekki allt í lagi með línuritið.
Nei það er náttúrlega ekki í lagi með það og verður aldrei. Þú ert með skemmd í hjartanu eins og aðrir sem fá svona áfall.
Ég minnti hann á orð hans fyrir ári síðan og það kom töluvert á hann en þó hafði hann rænu á að segja að þetta væri ekki rétt hjá mér. Síðan sagðist hann hafa sagt að það væri merkilegt að ekki væri meiri skemmd í hjartanu. Þessi lygi varð til þess að ég fylgdi kærunni ekki eftir þar sem ég taldi að allt væri í lagi og hvað ætti ég þá að kæra.
Ég endurtek að hvert einasta orð sem ég skrifa í þennan pistil er dagsatt.
Skál fyrir lífinu, bræður og systur!

   (11 af 38)  
4/12/06 09:01

krumpa

Magnað - er samt viss um að það eru margir sem lenda í þessu eða svipuðu. Veit um nokkrar sem hafa verið send heim með flensubörn sem dóu svo einum eða tveimur dögum seinna. Ótrúlegur andskoti að þetta pakk geti endalaust logið einhverju í okkur og svo virðist enginn dreginn til ábyrgðar.

4/12/06 09:01

Vímus

Já það er með ólíkindum hvað þeir komast upp með. Ég þekki einmitt svona flensudæmi. Pabbi vinar míns veiktist og læknir sem kom á staðinn sagði þetta vera flensuskít. Flensusjúklingurinn dó um nóttina af hjartaáfalli.

4/12/06 09:01

krossgata

Þeir geta verið stórkostlega alvitrir læknarnir að eigin skoðun. Ég gekk eitt sinn með utanlegsfóstur í 3 mánuði (það gerist ekki lengra) og fór til læknis 3svar sinnum á meðan. Sagði honum að ég væri ólétt. En hann hafði ákveðið og bitið í sig að eitthvað annað væri að og sendi mig heim með ný og ný hormónalyf til að koma Rósu frænku heimsóknum í lag. Eftir 3ja mánaða meðgöngu, var ég flutt á spítala, þegar fóstrið "sprakk" eins og þeir kalla það og var nær dauða en lífi af blóðmissi. Þeim tókst þó að halda í mér lífinu þegar þar kom, það mega þeir eiga.

4/12/06 09:01

Regína

Þú ert seigur Vímus.

4/12/06 09:01

Vímus

Mamma er vön að segja að það sé englavakt yfir mér og ég held að hún hafi rétt fyrir sér. Ég hef vaknað kl 4 um nótt við að síminn hringdi. Ég teygði mig hálfsofandi í tólið en enginn svaraði hallóinu svo ég lagði á og ætlaði að sofna aftur en glaðvaknaði þá og hugsaði. Hvaða helvítis bjarmi var þetta á veggnum. Ég rauk upp og í því fóru logarnir að gægjast upp fyrir aftan sjónvarpið. Ég kippti því úr sambandi og kastaði teppi yfir það. Síminn vakti mig á sama augnabliki og kviknaði í helvítis tækinu. Daginn eftir var ég fárveikur af baneitruðum reyknum. Ég leit á númerabirtinn en það var hringt úr leyninúmeri.
Hver hringdi?

4/12/06 09:01

Nermal

Djöfull er ég heppinn að hafa mína heilsu. Hef sama og ekkert þurft á læknum að halda. Veit samt að þegar ég var kornabarn þá þurfti móðir mín að standa í strögli til að koma mér til sérfræðings. Svo kom í ljós að ég var með lungnabólgu!!

4/12/06 09:01

krumpa

Ekki ég sem hringdi...
En datt þér í hug að kannski hefði einhver komið, kveikt í hjá þér og svo fengið móral og ákveðið að hringja til að vekja þig?
Nah, sagan um englanna er líklegri og fallegri!

4/12/06 09:01

Vímus

Nei það kviknaði í sjónvarpstækinu og dyrnar voru læstar þannig að það er útilokað. Ég sá fyrst aðeins bjarma á veggnum en þegar ég spratt upp þá fór eldurinn aftan úr tækinu að sjást og djöfull magnaðist hann fljótt. Ég sótti teppi í næsta herbergi og eldurinn var meters hár þegar ég kom aftur. Það tók örfáar sekúndur.

4/12/06 20:01

Magnús

Þetta er ótrúlegt. Maður skyldi halda að það væri stórmál ef læknir misgreinir sjúkling svona eins og sá sem greindi þig með magapínu gerði. Stórmál fyrir lækninn þ.e.a.s., ég hefði ekki haldið að hann fengi að praktísera þessar skottulækningar sínar mikið lengur.

Vímus:
  • Fæðing hér: 12/6/04 23:03
  • Síðast á ferli: 16/11/12 15:46
  • Innlegg: 7406
Eðli:
Óuppalinn. Slæmu uppeldi er því ekki um að kenna. Er sagður hafa fundist í eplakassa á öskuhaugum bæjarins. Góðhjartað fólk úr Vesturbænum tók mig að sér en skilaði mér fljótlega aftur á sömu slóðir. Þar nærðist ég á sorpi og rottukjöti uns haugarnir voru aflagðir. Mun þá hafa leitað uppi allan mannlegan sora sem fyrirfannst og haldið mig þar allar götur síðan. Finn mig sérlega vel á þessum vef.
Fræðasvið:
Lyfjagerð og smökkun
Æviágrip:
Því miður er öll mín ævi hulin óútskýranlegri þokuAð vísu er hún vel skráð hjá hinu opinbera. Sjá helstu geðdeildir, fangelsi og aðrar áþekkar stofnanir