— GESTAPÓ —
Anna Panna
Heiðursgestur.
Gagnrýni - 1/11/04
Star Wars fyrir nýja kynslóð!

Einu sinni voru til sjónvarpsþættir sem voru framleiddir af einum mesta snillingi sjónvarps og kvikmyndaheimsins. En vondu framleiðendurnir skildu ekki þáttinn hans, eyðilögðu hann og sáu til þess að hann náði ekki til áhorfenda og hættu að sýna hann. <br /> En snillingurinn var ekki af baki dottinn, hann ákvað að gera bíómynd um allt heila klabbið og getiði bara hvað? Þetta er besta eff-ing bíómynd ársins!

Serenity er um margt óvenjuleg kvikmynd. Hún er byggð á sjónvarpsþætti, sem er kannski ekkert svo óvenjulegt, en hún er byggð á sjónvarpsþætti sem var með lítið áhorf og var tekinn af dagskrá eftir að 11 þættir höfðu verið sýndir í kolvitlausri röð (þrátt fyrir að 14 þættir væru framleiddir). Sem sýnir enn og aftur hvað sjónvarpsstjórnendur í Ammríku eru vitlausir, þættirnir voru gefnir út á DVD og rokseldust og eru algjört költ hit, enda er það enginn annar en snillingurinn Joss Whedon sem gerði þá.
Nú ætla ég að viðurkenna það fyrir lesendum að ég er Joss Whedon nörd. Ég get vitnað í nánast öll hans verk, ég á seríur af sjónvarpsþáttunum hans á DVD og ég veit meira um hann og heimana sem hann skapar en þægilegt er! Fyrir þá sem ekki vita er Joss Whedon einna þekktastur fyrir að hafa búið til kvikmyndina og sjónvarpsþættina Buffy the Vampire Slayer og út frá því þættina um Angel (sem er spin-off af Buffy) en á tímabili var hann með 3 þætti í framleiðslu, BtVS, Angel og svo Firefly sem myndin Serenity er byggð á. Firefly sagði sögu úr framtíðinni, þegar mannkynið er orðið of fjölmennt fyrir jörðina og heldur út í geim í leit að nýjum heimkynnum. Til verður samfélag pláneta, á innri plánetunum er siðmenning og tæknivætt líf með öllum helstu nauðsynjum og munaði en á ytri plánetum og tunglum er líf fólks fábrotnara og minnir um margt á landnematímabilið í Ameríku, enda er það líka ætlun Joss. Kvikmyndin hefst nokkrum mánuðum eftir að þættirnir enda og er í raun beint framhald af þáttunum. Söguhetjur myndarinnar eru áhöfnin á geimskipinu Serenity sem flýgur á milli pláneta og tekur að sér öll þau verkefni sem þau geta, þótt þau séu kannski ekki algjörlega lögleg. Þau hafa tekið um borð tvo farþega, lækni og systur hans sem eru á flótta undan The Allience (sem er löggæsluvaldið á innri plánetunum) og verður það til þess að áhöfnin þarf að taka ákvörðun um hvort þau vilji halda áfram að gera það sem þau gerðu áður eða berjast við The Allience fyrir lífi og limum systkinanna. Og annarra. Ég ætla ekkert að rekja meira af söguþræðinum en sagan er frábær, vel sögð og það tekst mjög vel að kynna persónur og heiminn fyrir fólki sem hefur aldrei séð Firefly. Aðalleikarar eru þeir sömu og léku í þáttunum og maður finnur alveg að þeim líður vel í sínum hlutverkum. Joss leikstýrir sjálfur og maður sér hans handbragð á ýmsu, hann er mjög mikið gefinn fyrir langar tökur og ýmislegt óvenjulegt sem maður tekur yfirleitt ekki eftir fyrr en við annað eða þriðja áhorf.
Ástæðan fyrir því að ég segi að þetta sé Star Wars fyrir nýja kynslóð er sú að þetta er (að mínu mati alla vega!) besta sci-fi mynd en hefur komið fram lengi. Það eru ekki yfirþyrmandi tæknibrellur í henni (en þær brellur sem eru í myndinni eru ótrúlega flottar) og það er miklu mannlegra element í henni en í flestum öðrum sci-fi/geim myndum síðustu ára. Ef þú trúir mér ekki, verðurðu bara að sjá hana sjálfur. Best er náttúrulega að sjá þættina fyrst (þeir ættu að vera til í Laugarásvídeói, annars verð ég bara að lána þér þá!) en það er alls ekkert möst, aðalatriðið er að þetta er góð mynd, þú getur gert ýmislegt verra við tvo og hálfan klukkutíma í lífi þínu en að eyða þeim í bíó á Serenity.
Fimm stjörnur, takk fyrir mig Joss!

   (16 af 21)  
1/11/04 17:01

Heiðglyrnir

Jamm. þygg boðið um að fá þættina lánaða...Frábær og vel skrifuð gagnrýni...Nú beinlínis verður maður að sjá þetta...Þakka þér fyrir Anna Panna..!..

1/11/04 17:01

Limbri

Hvort viltu frekar senda mynddiskana (já eða myndbandsspólurnar) út til mín í pósti eða bara kíkja við með þá ? Ég nefnilega kemst ómögulega til Íslands í bráð að sækja þá.

-

1/11/04 17:01

Anna Panna

Ekki grínast með svona hluti, ég er sko á leiðinni í þinn heimshluta eftir áramótin og ég get sko alveg kippt þessu með mér!

1/11/04 17:01

Lærði-Geöff

Já þetta hljómar ekki svo galið. Verst ef þú þarft að fara að kópíera eða öllu heldur afrita diskana til að annast þá eftirspurn sem þú hefur hrundið af stað.

1/11/04 17:01

Anna Panna

Hehe, 10 nýir aðdáendur í viðbót og þá fæ ég steikarhnífasett!

1/11/04 17:01

Heiðglyrnir

[Kaupir steikarhnífasett til öryggis]

1/11/04 17:01

Hugfreður

Já þetta þarf maður greinilega að sjá, hef alltaf verið svolítið vísindaskáldskaparnörd í mér.

1/11/04 17:01

Texi Everto

Orrustustjarnan Stjörnuþokulega er líka eðall

1/11/04 17:01

Mosa frænka

Hafðu takk fyrir, Anna Panna - ég er sammála þér. Ég sá hana um daginn og hún er ekki einungis góð skáldsöguvísindi heldur einfaldlega góð mynd. Joss Whedon klikkar ekki á sögupersónunum, karlkyns sem kvenkyns. Hasarinn er einnig á sínum stað.

1/11/04 17:02

Vladimir Fuckov

Þetta verðum vjer greinilega að sjá. Þess má geta að mynd þessi fær frábæra dóma á IMDB. Vonandi er þetta eigi einungis fyrir nýja kynslóð heldur einnig hina einu sönnu Star Wars kynslóð [Fær æskuáranostalgíukast og minnist geimskipa úr Legokubbum og pappa].

1/11/04 18:01

Bangsímon

Mér fannst Serenity líka frábær. Ég hef líka séð meira en helming af öllu Joss Whedon efni tvisvarog allt a.m.k. einu sinni. Það er gríðarlega skemmtilegt.

1/11/04 18:01

Ísdrottningin

Ég verð greinilega að fara á stúfana og sjá þessa [blikkar Önnu] En hvernig var þetta með lánið á þáttunum?...

1/11/04 18:01

Hugfreður

Verð að taka undir með Texanum. Galaktíkin er sería sem ég kolféll fyrir, opin fyrir svo skemmtilegum túlkunum miðað við það sem komið er.

1/11/04 18:01

Hakuchi

Þetta lofar ansi góðu enda hef beðið nokkuð lengi eftir henni. Ég gerði reyndar fastlega ráð fyrir að hún færi beint á vídeó miðað við stórkostlega lága greindarvísitölu bíóbossa þessa lands.

Það hefur farið skemmtilega lítið fyrir þessari mynd. Kannski maður ætti að kíkja á Eldfluguseríuna, ég hef oft næstum því leigt hana. En hún fæst hjá Larrý í Laugarásvídeó, eins og allt sem máli skiptir í lífinu.

1/11/04 19:00

Hilmar Harðjaxl

Var að sjá þessa mynd rétt áðan og hún er bara nokkuð góð alveg. Skemmtilega persónur flestar og hallærislegum drama-atriðum nokkurn veginn haldið í lágmarki.

Anna Panna:
  • Fæðing hér: 5/5/04 12:08
  • Síðast á ferli: 16/12/23 11:57
  • Innlegg: 4727
Eðli:
Óeðlileg í flesta staði.
Fræðasvið:
Nýliðun í sögu Bagglýska heimsveldisins og innflytjendafræði.
Æviágrip:
Anna Panna Pottfjörð endurfæddist á dimmu haustkvöldi í rigningu og roki og verður ævin ágripuð eftir þörfum.
1. ágrip: Eftir þokukennd ár í landi Ísa gerðist fröken Panna hluti af útrásarher bagglýska heimsveldisins í Danmörku.
2. ágrip: Fæst nú einnig með háskólagráðu