— GESTAPÓ —
Hildisþorsti
Nýgræðingur.
Saga - 2/11/10
Og jólin koma fyrir mér

Ég hef í raun alltaf verið mikið jólabarn í mér. Sosum ekki farið yfirum í tiltekt, bakstri eða skreytingum. En það sem ég hef lagt til hefur verið alveg þokkalegt þó ég segi sjálfur frá. Engin flugeldasýning þannig séð. En alvöru.

Ég get státað af því að ég þreif einu sinni allt húsið með tusku og volgu sápuvatni fyrir jólin. Já já. Bæði veggina og loftið. Ég sagði ekki frá því. Enda svosem ekkert að monta mig af afrekum mínum. Það hæfir ekki mínum karakter. Það tók enginn eftir því. Konan reyndar minntist á það að við þyrftum að mála loftið fyrir næstu jól.

Ég hef líka bakað fyrir jólin. Ég bakaði eina aðventuna þegar krakkarnir voru yngri eitthvað á annað hundruð sörur. Þessar gómsætu frauðkökur með smjörkremi og súkkulaði. Ég laumaðist í það meðan krakkarnir voru í skólanum og konan að vinna. Ég geymdi þær í frystikistunni úti í bílskúr til að enginn kæmist á snoðir um þetta góðgæti. Helgi frændi (Þessi hjartveiki, óvirki alki) kom daginn fyrir Þorlák með sitt árlega jólakort og árlegu gjöf. Gjöf sem endurspeglar áhugamál hans það árið. Þetta ár kom hann einmitt með handmálað grágrýti innpakkað í sellófan. Þar sem Helgi hefur haft mikinn áhuga á að sýna hvað hann er mikill bakari og sérstaklega fyrir jólin ákvað ég að bjóða honum upp á gómsætar sörur. Það væri líka hægt að monta sig ofurlítið á móti, svona einu sinni. Ég stikaði út í skúr og gróf upp söruboxið. Við mér blasti á botninum á boxinu ein sara. Ein sara og mikið af “söru-mylsnu” Á örskotsstundu rann upp fyrir mér hversvegna krakkarnir í götunni sóttust alveg sérstaklega eftir að leika með börnunum inni í bílskúr hjá okkur. Í fljótfærni minni og örvinlan þá tók ég boxið og hljóp með það inn og rétti þessum hjartveika frænda mínum eina söru.

“Varstu að baka?” sagði hann með einkennilegri hæðni í röddinni.

Ég játti því þar sem ég hélt á tómu boxinu.

Í sömu andrá kom konan innan úr stofu og hafði heyrt samskipti okkar og tók af mér boxið.

“Hvar hefurðu falið ...” Konan þagnaði þegar hún leit ofan í boxið. “Hvað er þetta?”

“Ég var að baka.” aulaðist ég við að muldra út úr mér.

“Og ertu búinn að klára allar kökurnar?” Konan horfði á mig undrandi. Ég var ekki kominn út úr minni undrun sjálfur og tautaði eitthvað um að krakkarnir hefðu sennilega komist í boxið.

Það þarf náttúrlega ekki að fjölyrða um það að krakkarnir voru yfirheyrðir af móður sinni í viðurvist Helga frænda sem skemmti sér konunglega yfir vandræðagangnum í mér. Enn þann dag í dag hafa krakkarnir ekki viðurkennt að hafa haft nokkra hugmynd um að það væru yfirleitt til nokkrar sörur í kistunni. En það meiga þau eiga að oft síðan hafa þau hvatt gamla manninn til að “baka nú sörur fyrir jólin þær séu svo góðar.” Helgi hefur líka einnig í ófá skipti minnst á “söru-bakarann”.

Í jólaskreytingum er ég sennilega alveg á heimavelli. Ég legg metnað minn í það, að það logar á öllum perum á mínum seríum. Við erum búin að eiga sömu seríurnar í mörg ár. Það eru bara hvít ljós í okkar seríum þó svo að allir í götunni séu með eitthvert þema um að allar seríurnar séu rauðar í þessari götu. Ég get ekki séð að það sé hægt að skikka fólk til að gera svoleiðis. Ég hef mínar hugmyndir um liti og hvíti liturinn er tákn hreinleika og það finnst mér vera einmitt lýsa því sem að ég og mín fjölskylda höldum í heiðri á jólunum. Hreileikanum sem boðskapurinn um söguna af Jesúbarninu snýst um.

Eftir að börnin uxu úr grasi þá hefur tilraunum mínum til þess að skara framúr í að baka og taka til fækkað. Ég hef haldið mig til hlés. Sleikt frímerki, farið í búðina og ekið kerrunni, borið poka og farið í bað á aðfangadag.

Ég var og hef alltaf frá því ég var smábarn borið ótta af jólasveinum ekki bara þessum ameríska í rauðu fötunum með gæruskeggið heldur líka þessum þrettán sem áttu ónytjunginn Leppalúða fyrir föður og mannætuna Grýlu fyrir móður.

Eftir að barnabörnin blessuð fóru að skoppa í kringum mig þá hef ég samt hugsað sífellt um að ég þurfi nú að stíga út úr þægindahringnum. Aðeins að gera eitthvað sem litlu krílin munu geta sagt frá að gerst hafi hjá afa og ömmu. Eitthvað sem þau með ævintýraljóma í augum, geta sagt sínum börnum frá þegar þau verða fullorðin. Ekkert vita þessi börn skemmtilegra fyrir jólin en að hlusta á afa lesa jólasveinavísur Jóhannesar úr Kötlum. Ekkert er eins hræðilegt og þegar Grýla geysist inn í bæinn og tók veslings óþægu börnin og eldaði þau svo fram á nótt. Eða þegar kattarskrattinn át blessuð börnin sem aðeins höfðu unnið sér það til saka að þau fengu ekki föt fyrir jólin.

Þó að Helgi frændi sé ekki allra og sé alltaf að trana sér fram á ólíklegustu stöðum þá einhvernvegin hef ég tekið eftir því að þegar hann er kominn í jólasveinabúninginn og með takka-harmonikkuna (hnappa-harmonikkuna segir hann) í jafnvel sjónvarpssal með hundrað börn í kring um sig, þá tekst honum alveg ljómandi vel upp. Sjónvarp er jú sjónvarp og alltaf hægt að klippa út mistök. Ég veit það. Og það er algert tabú að tala um að Helgi frændi sé að leika jólasvein. Já komdu þar. Þó hann sé stöðugt að reyna að koma því að í jólaboðum og langt fram eftir ári að það hafi verið hann sem var Kertasníkir í Jóla-stundinni í sjónvarpinu get ég alltaf sussað á hann “að það sé nú ekkert gaman að vera tala um það og skemma fyrir blessuðum börnunum.”

Á mínu æskuheimili var til stórt albúm fullt að gömlum jólakortum. Þar vorum dönsk jólakort með jóla-nissum að leika sér í snjó og amerísk kort með pattaralegum brosleitum jólasveinum sem voru að troða pökkum ofan í sokka. Eitt kortið var með mynd af heilögum-Nikulási. Hann var góðlegur hvítskeggjaður gamall maður í grænum fötum með hvítum loðnum kraga.

Ég er kannski ekki mjög skipulagður en ég finn að lífsklukkan tifar og ég fékk hugmynd fyrir rúmu ári. Ég skráði mig á saumanámskeið í byrjun september. Ég sá miða hanga uppi í hverfisversluninni og ég lét verða af því. Konan átti ekki til orð.

“Og hvað ætlarðu að fara að sauma?”

“Það kemur í ljós.” sagði ég brosandi og reyndi að vera bjargfastur á svipinn að þetta þyrfti ég að gera.

“Ætlarðu kannski að sauma á þig þjóðbúning?” sagði konan með einhverjum efasvip.

“Það er aldrei að vita.” Ég reyndi að verða dálítið móðgaður.
Ég fór á tólf vikna námskeið. Tvö kvöld í viku. Það kom mér reyndar á óvart að þarna voru jú meirihlutinn karlar. Flestir voru að sauma á sig þjóðbúning en einn var að sauma kjól á konuna sína sagði hann. Allir voru þeir eldri en ég.

Ég reyndi að rissa upp myndina af heilögum-Nikulási eftir minni og síðan var mælt og sniðið. Skorið og klippt. Ég keypti rándýrt grænt flauelsefni og sex metra af hvítum loðkraga. Ég setti vatterað efni innan á flauelið til að gera búninginn hlýrri. Ég meira að segja klæddi kuldastígvél að utan með flaueli og setti kraga á brúnirnar. Ég mundi ekki alveg hvernig húfan var hjá Nikulási en mig minnti að í endanum hafi ekki verið dúskur heldur bjalla. Hnöttótt bjalla. Ég gat keypt hana á Ebay. Ég fékk smá bakþanka með bjölluna vegna dönsku nissana. En fyrst ég var búinn að kaupa hana þá saumaði ég hana í húfuna.

Ég hafði úthugsað uppákomu þar sem ég ætlaði að sýna nýja búningin. Ég ætlaði ekki að koma fram undir nafni. Nei ég ætlaði að koma fram sem heilagur Nikulás. Hjá okkur var fjölskylduboð á Jóladag og þar ætlaði ég að storma inn í miðja samkomu og segja börnunum söguna af litla grenitrénu sem var skilið eftir eitt úti í skógi en fékk að koma inn í hlýja stofu þegar það var orðið stórt og tignarlegt og var svo hent á eldinn efti jól.

Jóladagur rann upp og upp úr hádegi, rétt áður en gestirnir áttu að mæta byrjaði ég leikritið. Ég sagði konunni að forstjórinn hefði hringt í mig og beðið mig að kíkja aðeins í vinnuna það hefði komið brunaboð úr öryggiskerfinu. Hún tók því fálega og spurði hvort ég yrði ekki fljótur. Ég játti því.

Ég settist upp í bíl og ók í vinnuna. Þetta var sólríkur dagur og snjór yfir öllu. Ég hafði komið búningum fyrir inni á milli rekka í vinnuni. Þar hafið ég líka falið nefkítti og varalit. Það var eftirvænting í hjartanu. Ég sönglaði: “Krakkar mínir komiði sæl. Ég er heilagur Nikulás!”

Það var alveg ófært að renna í hlað á heimilisbílnum. Það mundi vekja grunsemdir hjá börnunum. Ég arkaði því af stað í múnderingunni með poka fullan af eplum á bakinu. Ég naut þess að veifa börnum sem voru að bisa við að draga snjóþoturnar sínar upp smá brekkur. Þau höfðu aldrei séð svona jólasvein í grænum fötum. Og ekki svona flott klæddann. Helgi frændi hefði aldrei hugmyndaflug eða metnað til að búa sig svona vel.

“Ho, ho hóó.” hrópaði ég til barnanna. Ég fann að nefkíttið var punkturinn yfir i-ið. Nokkur börn hlupu skelfd heim til sín. Gardínur voru dregnar örlítið frá gluggum. Tveir pörupilta hentu í mig snjóboltum. “Börn verða alltaf börn”, hugsaði ég.

Ég var komin í innkeyrsluna. Gestirnir voru greinilega komnir. Ég laumaðist inn þvottahúss megin og snaraðist inn í eldhúsið. Svo óheppilega vildi til að einmitt á þessari stundu var konan að taka marengstertu á fati út úr ísskápnum. Hún æpti upp og missti kökuna á gólfið. Ég ussaði á hana og gaf henni til kynn að þetta væri ég. Hún var svolitla stund að átta sig og ætlaði að segja eitthvað. Ég sussaði á hana og benti henni á að ég ætlaði að fara inní stofu þar sem fólkið væri og heilsa upp á börnin. Ég tiplaði á tánum að stofunni. Það skríkti í mér. Börnin sátu öll á gólfinu og sneru öll baki við hurðinni og horfðu inn í horn á stofunni. Þetta var fullkomið. Ég hoppaði inn í stofuna og hrópaði: “Krakkar mínir komið sæl!“

Börnin ærðust. Þau hlupu upp í fang foreldra sinna. Ég sá ástæðuna fyrir því að börnin höfðu setið svona stillt á gólfinu. Sat ekki fábjáninn hann Kertasníkir inni í stofu hjá mér með takka-harmonikku og var að segja frægðarsögur af skóísetningum og strompa- og sleðaferðum. Eitt augnablik horfðust þeir Kertasníkir og heilagur Nikulás í augu og alger þögn ríkti. Svo skellti Kertasníkir upp úr og kallaði: “Nei! Sjáiði krakkar. Þetta er hann Sörusleikir.”

Það sem gerðist næst er ég ekki viss um í hvaða röð gerðist en tvíburarnir, tveir strákar barnabörn frænda réðust á mig. Ég féll þeir rifu af mér húfuna og skeggið og börðu mig í andlitið. Nefkíttið klesstist út á kinn. Eplin rúlluðu út um allt gólf.

Þegar gestirnir voru farnir kom konan til mín út í skúr og sagði mér að þetta hefði nú veri svolítið yfirdrifið hjá mér. Hún hefði samt verið búin að undirstinga Helga frænda með að koma krökkunum á óvart vegna þess að hann hefði verið svo flottur í sjónvarpinu í fyrra.

Í ár ætla ég að sitja á friðarstóli. Ég mun gera það sem mér er sagt. Ég ryksuga, hjálpa til við að skipta um gardínur, fer í búðina, dett í hálkunni og fer í bað á aðfangadag. Ég er búinn að hengja upp seríurnar. Og jú ég er búinn að þvo bílinn … með grænum flauels-klút.

   (2 af 21)  
2/11/10 17:02

Fergesji

Já, laun heimsins eru vanþakklæti, og stórgóðar sögur.

2/11/10 17:02

Regína

Svo gott að lesa ... og hlæja með þér.

2/11/10 18:00

Kargur

Yndislegt rit hjá yður Hildisþorsti.

2/11/10 18:01

Heimskautafroskur

Fábær lesning – takk!

2/11/10 18:01

Billi bilaði

Takk fyrir sögustundina. <Ljómar upp>

2/11/10 19:01

Huxi

Þessi lestur kemur mér meira í jólaskap heldur en öll jólalög Svanhildar og Kötlu Maríu til samans. Þakka þér kærlega fyrir skemmtunina.

2/11/10 20:00

Golíat

Dásamleg saga Þorsti. Þakka þér.

2/11/10 20:01

krossgata

Svo indæl saga. Takk fyrir.

2/11/10 21:00

Grýta

Meistari ertu, svo sannur meistari.

1/12/11 15:02

Barbie

Fullkomin saga, það eina sem vantar er mynd af þér í handsaumaða búningnum með bjöllunni frá ebay. Aaah og æææ, leiðinlegt þegar eitthvað svo vel skipulagt fer í jafn mikla klessu og marengsterta sem fellur á gólfið. Hlátur og samúðarkveðjur.

Hildisþorsti:
  • Fæðing hér: 29/4/04 07:41
  • Síðast á ferli: 25/5/19 03:06
  • Innlegg: 8
Eðli:
Ljúfmenni á öllum stöðum.
Fræðasvið:
Tækifærissinni með föst viðmið.
Æviágrip:
Ólst upp þar sem öll fjöll eru há.